Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Lista­kon­ur í Lands­bank­an­um 

Á heimsvísu hefur athygli í vaxandi mæli beinst að listaverkum eftir konur á undanförnum áratugum. Á þetta við um verk núlifandi kvenna sem og verk þeirra sem ruddu brautina. Í safneign Landsbankans eru fjölmörg listaverk sem teljast til þjóðargersema og þar af eru mörg eftir konur. 
23. ágúst 2025

Á nýrri sýningu sem opnar í Reykjastræti 6 á Kvennaárinu 2025 verður sjónum beint að þessum verkum. Í ár eru 50 ár liðin frá Kvennafrídeginum, þegar íslenskar konur lögðu niður störf og stöðvuðu samfélagið. Þá skráðu þær sig jafnframt á spjöld sögunnar, í fararbroddi jafnréttisbaráttunnar. Augnablikið þegar Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsti lýðræðislega kjörni kvenforseti þjóðar er táknrænt. Margt hefur breyst á stuttum tíma og hér á landi er nú uppi einstök staða, þar sem konur gegna mörgum af þeim störfum sem áður voru þeim lokuð. Engum dylst að þessar breytingar eru til góðs þar sem það er ljóst að í fortíðinni hefur samfélagið orðið af miklum hæfileikum einstaklinga sem ekki hafa fengið að njóta sín til fulls, einungis vegna kynferðis. 

Listakonur í Landsbankanum - yfirlit

Í samtíma okkar má segja að staða kvenna innan lista sé sterkari en nokkru sinni fyrr, en þó er það svo að saga margra listakvenna fortíðarinnar hefur verið að falla í gleymsku. Á undanförnum árum hefur orðið mikil vakning í því að draga verk þeirra fram í dagsljósið, í viðleitni til þess að rétta þennan hlut. Þessi sýning er á sinn hátt liður í þessu endurliti sem hefur veitt nýja og dýpri innsýn í stöðu kvenna og varpað nýju ljósi á verk þeirra. Þrátt fyrir ýmsar hindranir létu þær ekki stöðva sig og buðu fyrir fram mótuðum hugmyndum um hlutverk kynjanna birginn. Þannig hafa þær allar átt sinn þátt í að opna heiminn fyrir þeim sem á eftir komu. Þær Kristín Jónsdóttir (1888-1959) og Júlíana Sveinsdóttir (1889-1966) voru t.d. með fyrstu íslensku konum til þess að leggja stund á myndlistarnám við akademíuna í Kaupmannahöfn eftir að fullt jafnrétti til náms komst á við skólann. Þó svo að þær hafi ekki notið sömu tækifæra og margir samtíðarmenn studdi Landsbankinn við bakið á þessum frumkvöðlum með því að kaupa verk þeirra og varðveita.  

Áhersla á mikilvægi menningar 

Listaverkasafn bankans óx allt því því að hann tók til starfa árið 1886 og fram til ársins 2008. Leiðir verkanna inn í safneignina eru þó afar fjölbreyttar. Bankinn hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar í sinni löngu sögu, en áhersla hefur alltaf verið lögð á mikilvægi menningar í starfseminni. Þannig má segja að safneign bankans endurspegli þróun listarinnar á 20. öld. Listaverk hafa prýtt húsakynni bankans, samfélagslegar miðjur þar sem fólk úr öllum þrepum þjóðfélagsins hefur lagt leið sína, og þannig átt þátt í að styrkja menningarf þjóðarinnar.   

Listaverk er að finna í útibúum um land allt og eru sum þeirra bundin byggingum bankans órjúfanlegum böndum. Má þar nefna stórt mósaíkverk eftir Gerði Helgadóttur sem staðsett er í gamla Landsbankahúsinu á Akureyri sem og freskur Nínu Tryggvadóttur á veggjum gamla Landsbankahússins í Austurstræti. Með breyttum áherslum í bankastarfsemi hafa þessar byggingar nú fengið nýja eigendur og þeirra býður nýtt hlutverk, sem mun að vonum laða að nýja áhorfendur. Landsbankinn heldur áfram að leggja rækt við þau verk sem eru í hans eigu, með því að sýna þau, skrásetja og varðveita. Verk eru lánuð á sýningar í söfnum og nú er einnig lögð áhersla á að miðla safneigninni á vef bankans. Verk eftir konur í safneigninni eru þó mun færri en verk eftir karla, en það er uppi á teningnum í flestum safneignum um víða veröld.  

Árið 2009 lét menntamálaráðuneytið gera listfræðilegt mat á listaverkasafni bankans. Lagt var til að verk í flokki I yrðu þjóðareign, verkum í flokki II yrði ekki ráðstafað án samráðs við Listasafn Íslands og verk í flokki III yrðu boðin að láni til menningarstofnana. Önnur verk féllu utan við matið og bankanum var frjálst að ráðstafa þeim án kvaða. Frá því þetta mat var unnið hafa verk sem voru í eigu sparisjóða sem bankinn hefur sameinast bæst við safnið og hefur sambærilegt mat verið lagt á þau. Um 90 verk eftir konur falla undir þessa flokka.

Á Menningarnótt 23. ágúst 2025 opnaði bankinn nýjan hluta á listaverkavef sínum þar sem þessi verk eru öll sýnd. Einnig opnaði sýning í Reykjastræti 6 þar sem valin verk eftir konur í eigu bankans voru til sýnis. 

Mörkuðu allar spor í íslenska listasögu 

Við val á verkum á sýninguna hefur verið reynt að endurspegla þróun listarinnar á Íslandi 20. öld og sýna verk kvenna sem allar hafa markað spor í íslenska listasögu, hver með sínum hætti. Um er að ræða málverk, textílverk, grafíkverk og leirverk sem öll bera sínum höfundum og tíðaranda vitni. Hér má sjá landslagsverk Kristínar Jónsdóttur og Júlíönu Sveinsdóttur frá byrjun síðustu aldar. Tvö verk eru eftir Nínu Sæmundsson sem átti merkan feril á erlendri grundu. Kyrralífsmynd eftir Louisu Matthíasdóttur og þróun yfir í abstraktið í verkum Nínu Tryggvadóttur og Guðmundu Andrésdóttur. Einnig er stórt verk eftir Ásgerði Búadóttur sem var frumkvöðull í notkun textíls sem miðils í samtímalist. Áhrif póstmódernisma, pólitískrar listar og femínisma er að finna í verkum Rósku og Ragnheiðar Jónsdóttur. Hér eru stórar teikningar eftir Björgu Þorsteinsdóttur og efnisrík málverk Guðrúnar Einarsdóttur. Nýja sýn á landslagið er að finna í málverkum Arngunnar Ýrar og skúlptúr Brynhildar Þorgeirsdóttur. Málverk Huldu Vilhjálmsdóttur og Hlaðgerðar Írisar Björnsdóttur frá byrjun 21. aldar sýna sífellda endurnýjun málverksins, annars vegar með expressjónískum hætti og hins vegar nánast yfirnáttúrulegu raunsæi. Einnig eru hér verk eftir þær Karen Agnete Þórarinsson, Tove Ólafsson og Barböru Árnason, konur sem skutu rótum hér á landi og áttu stóran þátt í að efla íslenska myndlistarhefð.

Alls eru verk eftir 23 listakonur á sýningunni sem allar hafa þróað með sér persónulegan og einbeittan stíl, listakonur sem hafa verið frumkvöðlar en eru jafnframt börn síns tíma. Myndlistarfólk hefur löngum átt þátt í því að breyta sýn okkar á náttúruna og landið okkar, fólkið og daglegt líf, auk þess að tengja íslenska menningu við það sem efst hefur verið á baugi á alþjóðavísu. Með starfi sínu í gegnum tíðina hafa myndlistarkonur átt þátt í því að breyta samfélaginu. Listræn sköpun þeirra og tjáning er fær um að vekja með okkur margvíslegar hugrenningar og aðdáun á næmni og færni þess sem skapar listaverkið. Skoðun listaverka eflir okkar innri fagurfræðilegu og sjónrænu þekkingu. Oft eru listaverkin fær um að tengja okkur við djúpstæðar tilfinningar sem tungumálið nær ekki yfir. 

Á Menningarnótt 2025 verður leiðsögn um sýninguna. Sýningin verður aðgengileg í Reykjastræti út árið 2025. Hér á vefnum eru birtar myndir af um 90 verkum eftir konur en verkin féllu undir listrænt mat menntamálaráðuneytisins frá árinu 2009.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Að hafa listaverk fyrir augunum veitir uppörvun og hvetur til hugsunar
Landsbankinn á mikinn fjölda listaverka sem spanna alla sögu íslenskrar myndlistar og eru fjölbreytt hvað varðar stíl, stærð og efni.
Listasafn Landsbankans - Kjarval, hreinar línur og hringrás
Á vef Landsbankans eru einnig greinar um þrjár myndlistarsýningar í bankanum. Árið 2020 voru 24 Kjarvalsverk í eigu bankans sýnd í Austurstræti 11. Árið 2021 opnaði sýning á íslenskum abstraktverkum úr listasafni bankans og árið 2023 opnaði sýning þar sem veitt var innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafnsins.