Verkefnið hófst vorið 2023 og lauk í maí 2024.
Mörg lykilverk íslenskrar listaverkasögu
„Við val á verkunum var miðað við að setja þekktustu og veglegustu verkin á áberandi staði. Bankinn á mörg lykilverk í íslenskri myndlistasögu og það væri miður ef þessi verk væru ósýnileg í geymslum. Við lögðum áherslu á velja verk eftir helstu listamenn íslenskrar listasögu eins og Kjarval, Jón Stefánsson, Þórarinn B. Þorláksson og fleiri. Til dæmis notuðum við fundarherbergi á jarðhæð til að sýna teikningar Kjarvals og minni verk hans, til að tryggja að þau væru sýnileg öllum sem koma inn í bankann. Að setja stærri verk, eins og verk Georgs Guðna í anddyri hússins, fól í sér ákveðna áskorun vegna þess að veggirnir í húsinu eru að miklu leyti steyptir og stallaðir og arkitektar hússins höfðu ekki séð fyrir sér að þar kæmu upphengd listaverk.“
Í húsakynnum bankans við Reykjastræti eru nú tæplega 200 listaverk, jafnt í anddyri og útibúi bankans, opnum vinnusvæðum, fundarherbergjum og næðisrýmum. Mögulega munu fleiri listaverk bætast við og valið er ekki endanlegt en það kemur vel til greina að skipta út verkum og þannig sýna betur fjölbreytileika listaverkasafnsins.
Vildu frekar nútímaleg og litrík listaverk
Aðalsteinn segir að við uppsetningu á listaverkunum hafi komið í ljós að starfsfólk vildi heldur fá nútímaleg og litrík verk en eldri, klassísk verk. „Þess vegna aðlöguðum við okkur stöðugt með því að skipta um verk ef tilefni var til og taka tillit til endurgjafar til að tryggja að listin höfði til þeirra sem umgangast hana daglega. Við reyndum að velja verk og sýna þau á þann hátt að þau myndu vera í samræmi við óskir starfsfólksins. Listaverkin krefjast athygli og fólk þarf að spekúlera í hlutum, að hafa listaverk fyrir augunum veitir uppörvun og hvetur til hugsunar. Þetta er miklu meira lifandi en berir veggir.“
Blómauppstillingar og landslagsmyndir
Í Landsbankahúsinu við Austurstræti 11 eru freskur eftir Jóhannes S. Kjarval og Jón Stefánsson og mósaíkmynd eftir Nínu Tryggvadóttur sem eru hluti af byggingunni og skapa sérstaka stemningu þar. Eðli málsins samkvæmt fylgdu þessi verk ekki yfir í Reykjastræti en í staðinn var reynt að finna aðrar leiðir til að samræma listaverkin við nútímalegan arkitektúr byggingarinnar. „Við höfum þurft að vera skapandi og finna nýjar lausnir til að tryggja að listaverkin njóti sín sem best. Það gerðum við meðal annars með því að setja upp listaverk með svipuð þemu á sömu hæð og skapa þannig heildarsýn. Í einni herbergjaröð á 3. hæð hússins er til dæmis hægt að finna landslagsmyndir og í herbergjaröð á 4. hæð eru málverk af blómauppstillingum. Á 5. hæð eru síðan myndir sem tengjast útgerð og hafnarstarfsemi. Þegar þú kemur inn í herbergi á sömu hæð, þá finnur þú eitthvað keimlíkt eða eitthvað sem rímar við það sem þú hefur séð í herberginu við hliðina. Við endursköpuðum einnig hugmyndina um „Kjarvalsganginn“ sem var á 2. hæð í Austurstræti, með því að hengja myndir eftir Kjarval á 5. hæð en þar eru stór fundarherbergi sem m.a. eru notuð af bankaráði. Þetta var gert til að heiðra sögu gamla bankahússins í Austurstræti og skapa tengingu við nýju bygginguna.“
Listaverkin njóta sín vel í nýja húsinu
Aðalsteinn er sérstaklega ánægður með hvernig tókst að koma verkum fyrir í húsinu, sérstaklega þeim sem ekki fengu að njóta sín í gamla bankanum. „Það er gaman að sjá þau njóta sín svo vel í nýju byggingunni. Þetta var stórt og krefjandi verkefni sem krafðist mikillar vinnu, vandvirkni og sköpunargáfu. Verkefnið sýnir hvernig hægt er að blanda saman gamalli og nýrri list á skapandi og áhrifaríkan hátt og skapa heildstæða upplifun fyrir gesti og starfsfólk bankans. Þetta er ekki bara spurning um að hengja upp myndir, heldur einnig að skapa samfellda og áhrifaríka upplifun sem heiðrar bæði sögu og framtíð listasafns bankans.“
Langt og farsælt samstarf við Landsbankann
Aðalsteinn Ingólfsson hefur víðtækan bakgrunn í listum, en hann lærði bókmenntafræði í Skotlandi og listfræði í London auk þess sem hann stundaði myndlistartengt nám bæði í Svíþjóð og á Ítalíu. Eftir að hann sneri aftur heim til Íslands hefur hann unnið fjölbreytt störf sem tengjast listum og menningu og hann var lengi menningarritstjóri á Dagblaðinu þar sem hann skrifaði reglulega myndlistargagnrýni.
Aðalsteinn færði sig síðan yfir í stofnanir og starfaði meðal annars í mörg ár sem deildarstjóri hjá Listasafni Íslands. Hann var fyrsti framkvæmdastjóri Kjarvalsstaða og vann einnig fyrir Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og tók þátt í að stofna Hönnunarsafn Íslands og var þar fyrsti forstöðumaður safnsins.
„Um miðjan 10. áratuginn skipulagði ég og setti upp sýningar, skrifaði nokkrar bækur um íslenska myndlist, starfaði fyrir ýmsar stofnanir og það var þá sem samstarf mitt við Landsbankann hófst. Ég veitti bankanum meðal annars ráðgjöf við kaup og uppsetningu listaverka í útibúum og höfuðstöðvum bankans í Austurstræti.“
Aðalsteinn hefur sett upp myndlistasýningar fyrir bankann og hann hefur séð um listaverkagöngur í Landsbankanum á Menningarnótt frá því að hátíðin var fyrst haldin fyrir tæplega 30 árum síðan.