Listaverkasafn Landsbankans

Listaverkasafnið varð til á löngum tíma enda byggir bankinn á gömlum grunni Landsbanka Íslands sem tók til starfa árið 1886. Þá bættust við listaverk í safnið þegar Samvinnubanki Íslands rann inn í Landsbankann árið 1991 og einnig hafa sparisjóðir sameinast bankanum.

Dæmi um það besta en líka til marks um langa og fjölbreytta sögu

Í listfræðilegu mati, sem var unnið fyrir menntamálaráðuneytið árið 2009, vegna umræðu um að íslenska ríkið myndi eignast listaverkasöfn íslensku bankanna, kemur fram að listaverkin komu í eigu Landsbankans með ýmsum hætti. Mörg dæmi eru um að listaverk hafi verið pöntuð hjá listamönnum en einnig voru verk keypt á sýningum eða fengin að gjöf. Þá eru nokkur dæmi um að tekið hafi verið við verkum sem greiðslu fyrir skuldir. „Sum verkanna í safninu tengjast sögu bankans eða fyrirrennara hans almennt eða jafnvel sögu einstakra bygginga hans, t.d. útibúa um allt land, en önnur eru til marks um viðleitni til að eignast dæmi um það besta sem var gert í íslensku listalífi á hverjum tíma,“ segir í matinu. Safnið sé með vissum hætti til marks um fjölbreytta sögu bankans og fyrirrennara hans, fremur en að það hafi orðið til einvörðungu fyrir markvissa söfnun á öllum starfstíma þeirra.

„Að hafa listaverk fyrir augunum veitir uppörvun og hvetur til hugsunar“

Landsbankinn á mikinn fjölda listaverka sem spanna alla sögu íslenskrar myndlistar og eru fjölbreytt hvað varðar stíl, stærð og efni. Til að veita ráðgjöf við val og staðsetningu á listaverkum í nýju húsnæði Landsbankans í Reykjastræti 6 leitaði bankinn til Aðalsteins Ingólfssonar, listfræðings, en fáir þekkja listaverkasafn bankans betur en hann.

Rúmlega 700 verk féllu undir listrænt mat

Þegar listrænt mat á verkum bankans fór fram voru um 2.000 listaverk í eigu bankans. Í matinu var lagt til að verk í flokki I yrðu þjóðareign, verkum í flokki II yrði ekki ráðstafað án samráðs við Listasafn Íslands og verk í flokki III yrðu boðin að láni til menningarstofnana. Í þessum flokkum voru alls 734 listaverk en bankanum væri frjálst að ráðstafa öðrum listaverkum að vild. Síðar bættust við verk sem voru í eigu sparisjóða sem bankinn hefur sameinast og hefur sambærilegt mat verið lagt á þau. Bankinn hefur ekki keypt verk til að bæta í safnið frá árinu 2008.

Ekki varð af því að ríkið eignaðist listaverk bankans en bankinn er stoltur af listaverkasafninu og leggur mikla áherslu á að varðveita og geyma listaverkin með fullnægjandi hætti. Ef tilefni er til eru þau send til forvarðar eða endurinnrömmuð. Þegar starfsemi bankans var flutt úr Austurstræti 11 var forvörður fenginn til að undirbúa verkin fyrir flutning, rykhreinsa og skoða hvort málning hefði losnað. Ástandið á verkunum var almennt gott en í sumum tilvikum höfðu þau gott af umönnun.

Tæplega 200 listaverk eru nú í Reykjastræti 6, bæði málverk og höggmyndir. Önnur eru ýmist í útibúum bankans um allt land eða í geymslum. Þá lánar bankinn reglulega verk úr safninu á myndlistasýningar.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur