Listasafn Landsbankans - Kjarval, hreinar línur og hringrás

Listasafn Landsbankans - Jóhannes S. Kjarval
Mörg verk í Kjarvalssafni bankans teljast ótvírætt til lykilverka í sögu íslenskrar myndlistar. Tengsl listamannsins við Landsbankann voru ævinlega náin og í bankanum er að finna eitt besta safn verka hans í einkaeigu. Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885—1972) var tvímælalaust sérstæðasti og ástsælasti myndlistarmaður Íslendinga á tuttugustu öld. Arfleifð hans er ákaflega umfangsmikil og fjölbreytt, og tekur til landslagsmynda, draumkenndra hugsýna og mannamynda sem oft og tíðum renna saman í eitt.
Hreinar línur - Íslensk abstraktlist, 1956-2007
Í listasafni Landsbankans er að finna fjölbreytt úrval verka eftir helstu abstraktmálara þjóðarinnar, kannski í meira mæli en búast mætti við af gamalgróinni bankastofnun. Í árdaga abstraktlistar, um 1950-60, átti hún í vök að verjast meðal íhaldsamra landsmanna og því hafa kaup bankans á slíkri myndlist tvímælalaust aukið á vinsældir hennar meðal almennings. Vegna þessarar áherslu bankans geymir listasafn hans eitt stærsta úrval landsins af verkum eftir helstu abstraktmálara þjóðarinnar, t.d. Karl Kvaran.
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Á sýningunni var kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitti innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi.

